Haustið er komið

  • Talsverð úrkoma á Vestfjörðum, Ströndum og Austfjörðum næstu daga, mest til fjalla.
  • Skriður og grjóthrun geta fallið á vegi undir bröttum hlíðum.
  • Ferðafólk er hvatt til að sýna aðgát, sérstaklega ferðafólk á Ströndum

Fyrsti september er gengin í garð og veðurspáin gerir ráð fyrir norðan-og norðaustanátt næstu daga. Rigningu er spáð á Vestfjörðum, sérstaklega á Ströndum í dag en einnig á Austfirðum næstu daga.

Í dag, mánudaginn 1. september, er spáð talsverðri rigningu á Vestfjörðum og á Ströndum og einhver úrkoma heldur áfram á morgun, mesta úrkoma er þó væntanleg til fjalla.

Á morgun, þriðjudaginn 2. september, bætist við úrkomuna á norðanverðum Austfjörðum og þar gæti samfelld úrkoma næstu þrjá sólarhringa náð allt að 110 mm. Skriðuvakt Veðurstofunnar fylgist náið með mælitækjum á Seyðisfirði og Eskifirði.

Á sama tíma er spáð úrkomusömu veðri á norðanverðum Vatnajökli og undir Öræfum, mesta úrkoma fellur á þó á jökla.

Því er ekki hægt að útiloka skriðuföll eins og grjóthrun, aurskriður eða aurflóð í lækjarfarvegum. Á Ströndum getur úrkoma valdið varasömum aðstæðum fyrir göngufólk. Þar sem vegir liggja undir bröttum hlíðum getur verið hætta á skriðum og grjóthruni niður á vegi. Bent er á að fólk sýni aðgát þegar ferðast er undir bröttum hlíðum, horfi í kringum sig og forðist að dvelja lengi innan og neðan farvega. Auk þess þarf að hafa í huga að skriður geta fallið eftir að mesta ákefð rigningar er afstaðin.

Á myndinni sést uppsöfnuð úrkoma (72 klst) frá því í dag 1. september til fimmtudags 4. september.

Tilkynna skriðuföll

Skriðuvakt Veðurstofunnar mun fylgjast með aðstæðum en til þess að geta lagt betur mat á aðstæður er mikilvægt fyrir okkur á vaktinni að fá tilkynningar um skriður og grjóthrun. Hægt er að hafa samband í síma 522-6000 á opnunartíma skiptiborðsins (https://www.vedur.is/um-vi/hafa-samband/) eða senda tölvupóst með upplýsingum á netfangið [email protected]. Gott er að láta fylgja mynd af skriðunni/grjóthruninu og nákvæma staðsetningu auk tímasetningar, hvenær skriðan féll eða hvenær fólk varð vart við hana. Einnig er hægt að tilkynna grjóthrun og skriður með þessu formi hér.

Haustlægðir og skriðuhætta

  • Talsverð úrkoma næstu tvo sólarhringa á SA-landi
  • Auknar líkur á grjóthruni og skriðum

Farið er að hausta og þá má búast við auknum lægðagangi með tilheyrandi auknum skriðuföllum. Grjóthrun og skriður falla í meiri mæli á haustin og biðjum við fólk að fylgjast með umhverfi sínu og tilkynna skriðuföll til skriðuvaktar Veðurstofunnar. Næstu tvo sólarhringa (25.-27.08) er spáð talsverðri uppsafnaðri úrkomu á Suðurlandi og sunnanverðum Austfjörðum með fremur hvassri austlægri átt. Talsvert dregur úr úrkomunni á miðvikudag.

Skriðuvakt Veðurstofunnar mun fylgjast með aðstæðum en til þess að geta lagt betur mat á aðstæður er mikilvægt fyrir okkur á vaktinni að fá tilkynningar um skriður og grjóthrun. Hægt er að hafa samband í síma 522-6000 á opnunartíma skiptiborðsins (https://www.vedur.is/um-vi/hafa-samband/) eða senda tölvupóst með upplýsingum á netfangið [email protected]. Gott er að láta fylgja mynd af skriðunni/grjóthruninu og nákvæma staðsetningu auk tímasetningar, hvenær skriðan féll eða hvenær fólk varð vart við hana. Einnig er hægt að tilkynna grjóthrun og skriður með þessu formi hér.

Uppsöfnuð 72 klst úrkoma frá mánudagsmorgni til fimmtudagsmorguns (25-28.08.2025)

Mögulegar skriðuaðstæður um verslunarmannahelgi

  • Gul viðvörun vegna hvassviðris og úrkomu á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum.
  • Líkur á grjóthruni, farvegabundnum aurskriðum og jarðvegsskriðum þar sem úrkoman er mest.
  • Varast skal að dvelja undir bröttum hlíðum og ástæða er til að sýna aðgát á vegum sunnan- og vestanlands.

Von er á djúpri lægð á morgun, föstudaginn 1. ágúst, sem mun stjórna veðrinu alla verslunarmannahelgina. Veðurspá gerir ráð fyrir að henni fylgir allhvass vindur, suðaustan 13-18 m/s, og talsverð rigning. Er líður á laugardag dregur úr úrkomuákefð en búast má við viðvarandi skúrum fram á mánudag. Uppsöfnuð úrkoma er mest bundin við sunnan- og vestanvert landið. Í kjölfar úrkomunnar má búast við vatnavöxtum í ám og lækjum, og farvegir sem venjulega eru vatnslausir geta fyllst. Í slíkum aðstæðum geta yfirborðshreyfingar eins og grjóthrun, farvegabundnar aurskriður og jarðvegsskriður átt sér stað fyrirvaralaust og skyndilega. Mun minni úrkomu er spáð á Norður- og Austurlandi, þar verður jafnvel bjart á köflum og hlýtt.

Í ljósi þess að komandi helgi er ein vinsælasta ferðahelgi ársins er rétt að vara við líkum á grjóthruni, yfirborðsskriðum og farvegabundnum aurskriðum í bröttum hlíðum. Gott er að fylgjast með merkingum á vef Vegagerðarinnar, umferdin.is, til að sjá hvort hætta sé á grjóthruni á vegum og/eða grjóthrun hafi fallið á veg. Þá er fólk hvatt til að sýna aðgát þegar ferðast er undir bröttum hlíðum, sérstaklega þar sem hætta á grjóthruni er þekkt. Fólk sem hefur hug á að tjalda skal varast að dvelja undir bröttum hlíðum.

Uppsöfnuð úrkoma fram á mánudag 4. ágúst (líkan UWC/IG).

Skriðuvakt Veðurstofunnar mun fylgjast vel með aðstæðum en til þess að geta lagt betur mat á aðstæður er mikilvægt fyrir okkur á vaktinni að fá tilkynningar um skriður. Hægt er að hafa samband í síma 522-6000 á opnunartíma skiptiborðsins (https://www.vedur.is/um-vi/hafa-samband/) eða senda tölvupóst með upplýsingum á netfangið [email protected]. Gott er að láta fylgja mynd af skriðunni/grjóthruninu og nákvæma staðsetningu auk tímasetningar, hvenær skriðan féll eða hvenær fólk varð vart við hana. Einnig er hægt að tilkynna grjóthrun og skriður með þessu formi hér.

Enn varað við skriðuhættu

Úrkoma er áfram viðloðandi á annesjum norðanlands en þurrara inn til landsins. Snjólína sveiflast svolítið og í morgun var talsverður snjór á láglendi í Ólafsfirði. Blautt er því ennþá í jarðlögum neðantil í fjallshlíðum og skriðuhætta möguleg. Ekki hafa borist tilkynningar um snjóflóð eða skriður undanfarinn sólarhring en fólk er áfram hvatt til að sýna aðgát í og undir fjallshlíðum.

Áfram dregur úr skriðuhættu

  • Dregið hefur úr skriðuhættu
  • Áfram viðvörun vegna skriðuhættu á Norðurlandi

Núna er veðrið gengið niður sem hefur herjað á landsmenn á norðanverðu landinu síðustu daga. Víða hefur snjóað til fjalla og rignt á láglendi. Mesta úrkoman í veðrinu mældist á Tröllaskaga, nánar tiltekið á Ólafsfirði, þar sem uppsöfnuð úrkoma fór yfir 230 mm, en úrkoma á Ólafsfjarðarvegi nálgaðist 200 mm. Samkvæmt útreikningum er 48 klst úrkoman með 25 ára endurkomutíma. Þegar úrkoman var sem mest, var úrkomuákefðin 8,7 mm á klst. á Ólafsfirði.

Víða á Norðurlandi var úrkoman mikil, þar sem snjóaði talsvert til fjalla, og er haustlegt yfirbragð á öllu Norðurlandi þessa stundina.

Fremur fáar tilkynningar um skriðuföll hafa borist, sem má rekja til lítils afrennslis vegna kulda, en snjólínan reyndist víða vera á hæðarbilinu 200–500 m.

Nú er úrkoman gengin yfir og aðstæður orðnar mun skaplegri og hefur því dregið úr skriðuhættunni. Laus jarðlög í neðri hluta fjallshlíða á Norðurlandi eru víða blaut, en aðstæður verða skaplegri eftir því sem lengra líður frá mestu úrkomunni. Því er ekki hægt að útiloka grjóthrun eða að minni skriður geti fallið á næstu dögum, á meðan afrennsli úr fjöllum er mikið. Skriðuviðvörun er þess vegna enn í gildi og á sérstaklega við um neðri hluta fjallshlíða.

Talsverður nýr snjór er til fjalla, og vot snjóflóð hafa fallið yst á Tröllaskaga. Fólk er því hvatt til að sýna aðgát undir fjallshlíðum, bæði vegna skriðu- og snjóflóðahættu.

Dregið hefur úr skriðuhætta á norðanverðu landinu

Úrkoma hefur minnkað mikið á Siglufirði, Ólafsfirði og í Útkinn frá því í gær, og mældist um 1 mm á klst í nótt á þessum stöðum. Það kólnaði fyrir norðan síðdegis í gær og í nótt og gert er ráð fyrir tiltölulega köldu veðri áfram í dag, með frosti til fjalla. Úrkomupáin fyrir daginn í dag er óbreytt frá því í gær, rigning á láglendi fyrir norðan þar til síðla kvölds, 1-3 mm á klst, snjókoma til fjalla, og úrkomulítið á morgun föstudag. Dregið hefur úr skriðuhætta á norðanverðu landinu og engar fréttir hafa borist af skriðuföllum. Laus jarðlög í fjallshlíðum á Norðurlandi eru þó víða vatnsósa og fylgst verður með aðstæðum í dag meðan úrkoma heldur áfram. Aðstæður á Ólafsfirði, þar sem varúðartilmælum var beint til íbúa efstu húsa undir Tindaöxl í gær, verða endurmetnar með morgninum.

Uppsöfnuð úrkoma í veðrinu síðan á mánudag er komin upp undir 230 mm á sjálfvirku veðurstöðinni í Ólafsfirði og tveggja sólarhringa gildi um 190 mm sem vænta má á áratuga fresti á því svæði. Endurkomutími virðist vera á bilinu 20-50 ár en mælingar á stöðinni ná aftur til ársins 1997.

Talsverður nýr snjór er til fjalla og vot snjóflóð hafa fallið ysta á Tröllaskaga, síðast í morgun ofan Ólafsfjarðarvegar. Fólk er því hvatt til að sýna aðgát undir fjallshlíðum, bæði vegna skriðu- og snjóflóðahættu.

Áframhaldandi skriðuhætta á norðanverðu landinu

  • Áfram skriðuhætta á Norðurlandi og Norðausturlandi
  • Talsverðri úrkomu enn spáð á svæðinu næsta sólarhring
  • Snjókoma í hæstu fjöll næstu daga
  • Tvær skriður hafa verið tilkynntar og tvö snjóflóð

Talsverð úrkoma hefur fallið á norðanverðu landinu síðustu tvo sólarhringa, úrkoma hefur mikið til fallið sem snjór til fjalla og rigning á láglendi og neðan 300 m. Eins og spár gerðu ráð fyrir, stytti fyrst upp á Austfjörðum en enn rignir á norðanverðu Austurlandi og á Norðurlandi. Mest uppsöfnuð úrkoma síðasta sólarhringinn var í Ólafsfirði rúmlega 130 mm en talsvert minna hefur safnast í Siglufirði eða um 46 mm. Fáar tilkynningar hafa borist skriðuvakt Veðurstofunnar. Lítil aurspýja féll í nótt í vegskeringu við Ólafsfjarðarveg en einnig hafa fallið tvö lítil snjóflóð í Ósbrekkufjalli í Ólafsfirði. Ein aurspýja féll í lækjarfarveg í Norðfirði í gær.

Spáð er áframhaldandi úrkomu á norðanverðu landinu þar sem snjóa mun í efri hluta fjalla en rigna neðar. Gera má ráð fyrir talsverðri rigningu og vatnavöxtum næstu daga þó draga muni úr úrkomu á Norðurlandi á föstudag. Gera má ráð fyrir að skriðuhætta á Austfjörðum fari minnkandi en áfram er í gildi viðvörun vegna skriðuhættu og vatnavaxta á Norðurlandi og Norðausturlandi.

Uppsöfnuð úrkoma frá UWC-IG veðurlíkani frá miðvikudegi 4.júní kl 09 til 6.júní kl 09.

Í miklum vatnsveðrum sem þessum getur verið erfitt að spá fyrir um staðbundna úrkomu í flóknu fjarðarlandslagi, og því getur verið erfitt að meta hvar skriðuhættan er mest hverju sinni. Snöggar breytingar í hita og vindátt geta valdið því að aðstæður breytist hratt, og hætta getur skapast á nýjum stöðum.

Skriðuvakt Veðurstofunnar mun fylgjast náið með aðstæðun næstu sólarhringa en til þess að geta lagt betur mat á aðstæður er mikilvægt fyrir okkur á vaktinni á fá tilkynningar um skriður. Hægt er að hafa samband í síma 522-6000 á opnunartíma skiptiborðsins (https://www.vedur.is/um-vi/hafa-samband/) eða senda tölvupóst með upplýsingum á netfangið [email protected]. Gott er að láta fylgja mynd af skriðunni/grjóthruninu og nákvæma staðsetningu auk tímasetningar, hvenær skriðan féll eða hvenær fólk varð vart við hana. Einnig er hægt að tilkynna grjóthrun og skriður með þessu formi hér.

Skriðuhætta og vatnavextir á norðan- og austanverðu landinu

  • Skriðuhætta á norðanverðu landinu frá Ströndum að Glettingi
  • Skriðuhætta á norðanverðum Austfjörðum
  • Mikil rigning á öllu norðanverðu landinu samfara leysingum og má búast við vatnavöxtum
  • Mesta úrkoman mun falla á Tröllaskaga og Flateyjarskaga

Í nótt snjóaði til fjalla víða á annesjum á norðanverðu og austanverðu landinu, og festi snjó víða á láglendi á Flateyjarskaga og Tröllaskaga. Hlýrra var á Austfjörðum en snjólínan var þar í um 400 m h y.s. Úrkoman féll mest til fjalla, en mesta mælda úrkoman á láglendi síðustu 24 klst. var á Bakkagerði í Borgarfirði eystra, þar sem mældust hátt í 37 mm.

Samkvæmt veðurspánni er ekkert lát á úrkomunni, og má búast við mikilli uppsafnaðri úrkomu næstu tvo daga (3.–4. júní), sérstaklega á norðanverðu landinu í kringum Flateyjarskaga og Tröllaskaga. Eftir hádegi í dag mun rigna á láglendi en snjóa efst í fjallatoppum þegar hlýnar, og má því búast við miklu afrennsli á þeim stöðum þar sem úrkoman verður mest, sjá meðfylgjandi kort.

Gera má ráð fyrir mikilli rigningu nyrst á Tröllaskaga og Flateyjarskaga í dag og fram á helgi, en aðfaranótt fimmtudags mun draga eitthvað úr ákefðinni. Eins má búast við talsverðri úrkomu á Skaga, Vatnsnesi, Ströndum og á Tjörnesi næstu sólarhringa. Á þessum slóðum verður hætta á skriðuföllum og vatnavöxtum næstu daga, og hefur verið gefin út úrkomuviðvörun fyrir þessi svæði. Skriðuviðvörun er því í gildi fyrir norðanvert landið, frá Ströndum að Glettingi.

Á norðanverðum Austfjörðum má búast við úrkomu, en hún verður mest í grennd við Vopnafjörð, Borgarfjörð eystri og Mjóafjörð. Spáin gerir ráð fyrir minni úrkomu á Seyðisfirði og Eskifirði, en þó má búast við þónokkurri úrkomu á þeim slóðum. Grunnvatnsmælar á Seyðisfirði og Eskifirði gefa til kynna að grunnvatnsstaða sé lág. Líkt og á Norðurlandi snjóaði í nótt, en leysingar byrjuðu í morgun og mun snjólínan hækka fram eftir degi. Úrkoman austast á fjörðunum mun vara skemur en á Norðurlandi, en gera má ráð fyrir því að dragi hratt úr úrkomuákefðinni skömmu eftir hádegi miðvikudaginn 4. júní, þó styttir ekki upp fyrr en seinna um daginn. Þar sem uppsöfnuð úrkoma er talsverð á svæðinu er varað við auknum líkum á skriðuföllum.

Í miklum vatnsveðrum sem þessum getur verið erfitt að spá fyrir um staðbundna úrkomu í flóknu fjarðarlandslagi, og því getur verið erfitt að meta hvar skriðuhættan er mest. Snöggar breytingar í hitastigi og vindátt geta valdið því að aðstæður breytast snögglega, og hætta getur skapast á ólíklegum stöðum.

Spákort gert á VÍ
Uppsöfnuð úrkoma samkvæmt UWC-IG veðurlíkaninu fyrir næstu 70 klst (03.06.2025 kl:06 – 06.06.2025 kl: 06.)

Skriðuvakt Veðurstofunnar mun fylgjast náið með aðstæðun næstu sólarhringa en til að geta lagt betur mat á aðstæður er mikilvægt fyrir okkur á vaktinni á fá tilkynningar um skriðuföll. Hægt er að hafa samband í síma 522-6000 á opnunartíma skiptiborðsins (https://www.vedur.is/um-vi/hafa-samband/) eða senda tölvupóst með upplýsingum á netfangið [email protected]. Gott er að láta fylgja mynd af skriðunni/grjóthruninu og nákvæma staðsetningu auk tímasetningar, hvenær ofanflóðið féll eða hvenær fólk varð vart við það. Einnig er hægt að tilkynna grjóthrun og skriður með þessu formi hér.

Seyðisfjörður – Mat á aðstæðum 3. júní 2025

Veðurspáin gerir ráð fyrir úrkomu á Seyðisfirði næstu sólarhringa en minni úrkomu en spáð hefur verið á svæðunum í kring. Viðvörum vegna skriðuhættu á norðanverðum Austfjörðum tekur gildi kl 12 í dag.

Grunnvatnsstaða á Seyðisfirði er fremur lág miðað við árstíma sem má rekja til þurrka og hlýinda í vor. Engar hreyfingar hafa mælst á mælitækjum frá því að það hóf að rigna á láglendi. Snjólínan er í ca 400-500 m h.y.s. og því hefur lítið vatn verið að skila sér niður í Neðri-Botna og úrkoma síðastliðinn sólarhring hefur ekki verið mikil eða tæplega 30 mm sem er minna en spáin gerði ráð fyrir. Spáin í morgun gerir ráð fyrir tæplega 80 mm úrkomu á Seyðisfirði fram á aðfaranótt fimmtudags. Mesta ákefðin verður í dag en samkvæmt spánni mun draga úr henni í kvöld en áfram rigna fram á fimmtudag. Þegar að líður á daginn mun hlýna og snjólínan mun hækka.

Leysingarnar og rigningin í dag munu valda grunnvatnshækkunum en að svo stöddu teljum ekki vera hættu í hlíðunum undir Neðri-Botnum.

Skriðuvakt Veðurstofunnar mun fylgjast vel með aðstæðum næstu sólarhringa.

Norðanhvassviðri og mikil úrkoma

  • Mikil úrkoma (snjókoma, slydda og rigning) á norðan- og austanverðu landinu á næstu dögum.
  • Auknar líkur á skriðuföllum og vatnavöxtum þegar líður á veðrið.

Spáð er norðan áhlaupi með mikilli úrkomu um norðan- og austanvert landið næstu daga. Í kvöld og nótt má búast við snjókomu niður í byggð á Norðurlandi, en þegar líður á morgundaginn hlýnar heldur og snjólína hækkar. Þá bætir í vind og úrkomu, og áfram má búast við snjókomu til fjalla og inn til dala.


Mestu úrkomunni er spáð á þriðjudag og miðvikudag, og ekki er gert ráð fyrir að stytti alveg upp fyrr en á laugardag. Vindur getur orðið allhvass af norðri til norðausturs (N-NNA) og náð 13–18 m/s á þriðjudag á Vestfjörðum og Norðurlandi, en heldur hægari á Austfjörðum.


Auknar líkur á skriðuföllum og vatnavöxtum þegar líður á veðrið og jafnvel fram undir helgi ef úrkomuákefðin helst mikil fram eftir vikunni.

Spákort gert á VÍ
Uppsöfnuð úrkoma frá mánudagsmorgni til fimmtudagsmorguns.