- Talsverð úrkoma á Vestfjörðum, Ströndum og Austfjörðum næstu daga, mest til fjalla.
- Skriður og grjóthrun geta fallið á vegi undir bröttum hlíðum.
- Ferðafólk er hvatt til að sýna aðgát, sérstaklega ferðafólk á Ströndum
Fyrsti september er gengin í garð og veðurspáin gerir ráð fyrir norðan-og norðaustanátt næstu daga. Rigningu er spáð á Vestfjörðum, sérstaklega á Ströndum í dag en einnig á Austfirðum næstu daga.
Í dag, mánudaginn 1. september, er spáð talsverðri rigningu á Vestfjörðum og á Ströndum og einhver úrkoma heldur áfram á morgun, mesta úrkoma er þó væntanleg til fjalla.
Á morgun, þriðjudaginn 2. september, bætist við úrkomuna á norðanverðum Austfjörðum og þar gæti samfelld úrkoma næstu þrjá sólarhringa náð allt að 110 mm. Skriðuvakt Veðurstofunnar fylgist náið með mælitækjum á Seyðisfirði og Eskifirði.
Á sama tíma er spáð úrkomusömu veðri á norðanverðum Vatnajökli og undir Öræfum, mesta úrkoma fellur á þó á jökla.
Því er ekki hægt að útiloka skriðuföll eins og grjóthrun, aurskriður eða aurflóð í lækjarfarvegum. Á Ströndum getur úrkoma valdið varasömum aðstæðum fyrir göngufólk. Þar sem vegir liggja undir bröttum hlíðum getur verið hætta á skriðum og grjóthruni niður á vegi. Bent er á að fólk sýni aðgát þegar ferðast er undir bröttum hlíðum, horfi í kringum sig og forðist að dvelja lengi innan og neðan farvega. Auk þess þarf að hafa í huga að skriður geta fallið eftir að mesta ákefð rigningar er afstaðin.
Á myndinni sést uppsöfnuð úrkoma (72 klst) frá því í dag 1. september til fimmtudags 4. september.

Tilkynna skriðuföll
Skriðuvakt Veðurstofunnar mun fylgjast með aðstæðum en til þess að geta lagt betur mat á aðstæður er mikilvægt fyrir okkur á vaktinni að fá tilkynningar um skriður og grjóthrun. Hægt er að hafa samband í síma 522-6000 á opnunartíma skiptiborðsins (https://www.vedur.is/um-vi/hafa-samband/) eða senda tölvupóst með upplýsingum á netfangið [email protected]. Gott er að láta fylgja mynd af skriðunni/grjóthruninu og nákvæma staðsetningu auk tímasetningar, hvenær skriðan féll eða hvenær fólk varð vart við hana. Einnig er hægt að tilkynna grjóthrun og skriður með þessu formi hér.